Heimsljós
veftímarit um þróunar- og mannúðarmál
10. árg. 335. tbl.
13. september 2017
World Seafood Congress 2017 haldið á Íslandi:
Vöxtur í bláa lífhagkerfinu ein helsta forsenda Heimsmarkmiðanna
Meginþema ráðstefnunnar World Seafood Congress 2017 sem lýkur í Hörpu í dag er vöxtur í bláa lífhagkerfinu. Hugtakið er tilvísun í mikilvægi hafsins þar sem veruleg tækifæri liggja til vaxtar, nýsköpunar, rannsókna, markaðssetningar með matvælaöryggi, fæðuöryggi, sjálfbærni og matarheilindi að leiðarljósi. Áhersluatriðin eru nýsköpun í sjávarútvegi - nýjar vörur og möguleikar til fjárfestinga; matvælaöryggi - forsenda nýsköpunar í matvælaframleiðslu og alþjóðlegrar verslunar með mat; og í þriðja lagi matarheilindi - baráttan gegn svikum í matvælaframleiðslu og -sölu á tímum netverslunar, matartengdrar ferðaþjónustu og ósk neytenda um rekjanleika í matvælaframleiðslu.
 
Bláa lífhagkerfið og breytingar í vinnslu sjávarafurða voru meginstefin í ræðum á upphafsdegi World Seafood Congress 2017 (Heimsráðstefnu um sjávarfang) sem hófst í Hörpu á mánudag. Talið er að bláa lífhagkerfið sé eitt lykilatriðanna í því að ná Heimsmarkmiðunum en nú er sjávarfang aðeins um 5% af matvælum sem neytt er í heiminum.
 
Utanríkisráðherra á tveimur viðburðum
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók þátt í tveimur fundum í vikunni í tengslum við World Seafood Congress (WSC). " Nýtt tækifæri fyrir höfin" var yfirskrift hliðarviðburðar WSC í hádeginu í gær, þriðjudaginn 12. september, sem haldinn var í boði utanríkisráðuneytisins, atvinnuvega- og  nýsköpunarráðuneytisins, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO) og Matís í Rímusalnum.

Meginumræðuefni fundarins var heimsmarkmið SÞ nr. 14, sem fjallar um hafið: "Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun". Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti inngangsorð og ræddi áherslur íslenskra stjórnvalda í þessu samhengi. Að loknu ávarpinu tók dr. Manuel  Barange, aðstoðarskrifstofustjóri fiskideildar FAO, við og stjórnaði pallborðsumræðum um 14. heimsmarkmiðið. Aðrir þátttakendur voru: Carey Bonnell, International Association of Fish Inspectors (IAFI), Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Mary Frances Davidson, Sjávarútvegsskólanum, og Sveinn Margeirsson, Matís.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flytur einnig inngangsorð á ráðherrafundi að lokinni World Seafood Congress en sá fundur fer fram í Háuloftum í Hörpu síðar í dag, kl. 13:30-16:30. Í fundinum taka þátt sendinefndir frá Bangladess, Grænhöfðaeyjum, Kostaríka, Nígeríu, Malasíu, Kanada, Nova Scotia, Nýfundnalandi og Labrador,  Prince Edward-eyju í Kanada, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO), Alþjóðabankanum, Norrænu ráðherranefndinni, Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Iðnþróunarstofnun SÞ (UNIDO).
 
Meginumræðuefni fundarins lýtur að því hvernig vinna megi að framgangi bláa hagkerfisins og nýta á bestan hátt möguleika hafsins (Promoting the Blue Bioeconomy - Making Best Use of Ocean Opportunities).
 
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er í forsæti fyrir Íslands hönd á fyrri hluta fundarins, en þá mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra taka við. Ráðherrarnir og aðrir formenn sendinefnda munu ræða um bláa hagkerfið undir leiðsögn dr. Ray Hilborn prófessors í háskólanum í Washingtonfylki í Bandaríkjunum, sem fjallar um fiskveiðistjórnun, og dr. Önnu Kristínar Daníelsdóttur, yfirmanni rannsókna og  nýsköpunar hjá MATÍS, sem ræðir um það, hvað þurfi til, til að skapa öflugt blátt hagkerfi. 
Nýnemar hjá Sjávarútvegsskólanum - meirihlutinn konur
Tuttugu ára afmæli skólans á þessu ári minnst með margvíslegum hætti

Nokkrar af konunum sem skráðar eru í Sjávarútvegsskólann í ár.
Á þessu skólaári munu 21 nemandi taka þátt í sex-mánaða námi Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, meirihluti þeirra eru konur eða 13 talsins. 
Alls koma nemendurnir frá 15 löndum í Asíu, Afríku, Mið-Ameríku og Karíbahafinu.
 
Átta þeirra ætla að sérhæfa sig á sviði gæðastjórnunar, sjö á sviði stofnmats, og sex á sviði sjálfbærs fiskeldis.
 
Námið er skipulagt í þrjá ólíka hluta: Inngangur (sex vikur); sérhæfing (sex vikur); og þriggja mánaða rannsóknarvinna /lokaverkefni.
 
Í inngangnum fá nemendur heildstætt yfirlit um sjávarútveg í heiminum og innsýn inn í hin ýmsu svið greinarinnar og hvernig þau tengjast. Í sérhæfingunni byggja nemendurnir upp færni á einu sviði með því að sækja fyrirlestra, vinna verkefni og heimsækja valin fyrirtæki og stofnanir.
 
Í lokaverkefninu vinna þeir undir handleiðslu umsjónarkennara - taka að sér rannsókn eða verkefni sem hefur mikla þýðingu fyrir heimaland þeirra og tengist starfi þeirra þar. 


Tuttugu ár
Sjávarútvegsskólinn tekur nú á  móti nýjum hópi nemenda í tuttugasta sinn frá því hann var stofnaður árið 1997. Haldið verður upp á þann áfanga með ýmsum hætti, en einna hæst ber þátttöku á ráðstefnunni World Seafood Congress 2017.
 
Á vegum skólans taka til dæmis um 50 núverandi og fyrrverandi nemendur virkan þátt með framsögum og kynningum. Skólinn á einnig veg og vanda að því að fá á ráðstefnuna Ray Hilborn einn frægasta sjávarlíffræðing heims. Sjávarútvegsskólanum hefur frá upphafi verið ætlað mikilvægt hlutverk í aðstoð Íslands við þróunarlönd.

"Veigamikill hluti af því námi og þjálfun sem skólinn býður upp á snýr að meðferð og vinnslu afla, en það er einmitt mjög mikilvægur liður í að tryggja almenningi í þróunarríkjum aðgang að hollum og öruggum matvælum og einnig lykilforsenda árangurs á sviði útflutnings sjávarafurða. Á sama tíma hefur alltaf verið ljóst að skólinn getur, t.d. með uppbyggingu á tengslanetum innan sjávarútvegs á alþjóðavísu, haft mikið gildi fyrir íslenskan sjávarútveg og skyldar greinar og styrkt stöðu okkar sem einnar af leiðandi fiskveiði- og fiskvinnsluþjóðum heims," segir í frétt frá skólanum.

Haldið er upp á tuttugu ára starfsafmæli skólans ýmsum hætti, m.a. með því að bjóða 22 eldri nemendum að taka þátt í ráðstefnunni World Seafood Congress (WSC) og Íslensku sjávarútvegssýningunni (Icefish) sem báðar fara fram í þessari viku.

Nemendurnir hafa verið önnum kafnir síðan þeir komu til landsins um síðustu helgi - hlýða á erindi, ganga frá veggspjöldum fyrir ráðstefnuna, halda fyrirlestra, styrkja tengsl við kollega og - að sjálfsögðu - skemmta sér.

Alls hafa 347 nemendur lokið námi frá skólanum frá upphafi, þ.e. útskrifast á árunum 1999-2017. Þessu til viðbótar koma svo þeir nemendur sem hófu nám í síðustu viku og  útskrifast næsta vor (2018) alls 21 nemandi.
Þeir koma frá alls 53 löndum. Flestir frá Víetnam, eða 26, og tuttugu eða fleiri hafa komið frá Úganda, Kína, Kenía, Sri Lanka og Tansaníu. Hingað hafa komið nemendur frá Nárú og Vanúatú, Súrínam og Sankti Lúsíu, svo fátt eitt sé talið. Og sex hafa komið frá Norður-Kóreu.
Skýrsla Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um menntamál: 
Meirihluti ungmenna á flótta utan skóla - aðeins 1% í háskólanámi

Rúmlega 3,5 milljónir flóttabarna á aldrinum fimm til sautján ára hafa ekki fengið tækifæri til að sækja skóla á síðasta skólaári. Þetta kemur fram í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) sem birt var í gær. Um er að ræða  1,5 milljón flóttabarna sem fara ekki í grunnskóla og tvær milljónir flóttaunglinga sem eru ekki í framhaldsskóla, segir í skýrslunni.
 
"Af þeim 17,2 milljónum flóttamanna sem UNHCR hefur umsjón með er helmingurinn börn," sagði Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi SÞ. "Menntun þessa unga fólks er lykilforsenda friðsamlegrar og sjálfbærrar þróunar landanna sem hafa tekið á móti þeim sem og heimalanda þeirra þegar þau geta snúið aftur. En í samanburði við önnur börn og unglinga á heimsvísu verður munurinn á tækifærum þeirra og flóttamanna sífellt meiri."
 
Skýrslan ber yfirskriftina: "Skilin eftir: Menntun flóttafólks í kreppu. Þar kemur fram að 91% barna í heiminum ganga í grunnskóla. Meðal flóttafólks er þessi tala mun lægri, aðeins 61% og í lágtekjulöndum er hún innan við 50 prósent. Þegar börn flóttafólks eldast aukast hindranirnar: aðeins 23% flóttaunglinga eru skráðir í framhaldsskóla, samanborið við 84% á heimsvísu. Í lágtekjulöndum geta aðeins 9% flóttamanna farið í framhaldsskóla. Á háskólastigi er ástandið alvarlegt. Á heimsvísu er skráning á háskólastigi 36%. Hjá flóttafólki kemst hlutfallið ekki upp fyrir 1 prósent, þrátt fyrir mikla aukningu í heildarfjölda vegna fjárfestinga í styrkjum og öðrum aðgerðum.
 
Alþjóðasamfélagið mun ekki ná markmiðum sínum um sjálfbæra þróun - 17 markmiðum sem miða að því að umbreyta heiminum fyrir árið 2030 - ef ekkert er gert til að snúa þessari þróun við, segir í skýrslunni. Markmið fjögur, "Tryggja gæðamenntun fyrir alla og stuðla að símenntun", mun ekki nást án þess að uppfylla menntunarþarfir viðkvæmra hópa, þar á meðal flóttafólks og veglauss fólks. Og grafið verður undan mörgum öðrum þróunarmarkmiðum sem snúast um heilbrigði, velmegun, jafnrétti og frið ef menntun er vanrækt.
 
Þetta er önnur ársskýrslan um menntamál frá UNHCR. Sú fyrsta, "Að missa af", var gefin út í tengslum við  leiðtogafund allsherjarþings SÞ um flóttamenn og farandfólk í september síðastliðnum. New York-yfirlýsingin um flóttamenn og farandfólk sem undirrituð var af 193 löndum, setti menntun á oddinn í alþjóðlegum viðbrögðum.
 
"Þrátt fyrir mikinn stuðning við New York-yfirlýsinguna er flóttafólk, einu ári seinna, í raunverulegri hættu á að vera skilið eftir hvað varðar menntun," sagði Grandi. "Að tryggja að flóttamenn hafi sanngjarnan aðgang að gæða menntun er á ábyrgð okkar allra. Það er kominn tími til að fara frá orðum til athafna."
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna kallar eftir átaki í menntamálum:
Hlutfall barna utan skóla hefur verið nánast óbreytt í heilan áratug

Mikil fátækt, langvarandi átök og fjölþætt neyðarástand víðs vegar um heiminn hefur leitt til þess að stöðnun hefur orðið í baráttunni fyrir því að öll börn gangi í skóla. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) kallar á frekari fjárfestingar til að fækka börnum utan skóla.
 
Fréttaveita Sameinuðu þjóðanna segir að 11,5% barna á grunnskólaaldri - eða 123 milljónir barna - fái ekki þá grunnmenntun sem börnin eiga rétt á. Hlutfall barna utan skóla standi nánast í stað frá því fyrir tíu árum, árið 2007, þegar 12,8% barna voru utan skóla.
 
Haft er eftir Jo Bourne yfirmanni menntamála hjá UNICEF að fjárfestingar sem miða að því að fjölga skólum og kennurum til samræmis við mannfjöldaþróun sé ekki fullnægjandi. Sú aðferðafræði nái ekki til bágstöddustu barnanna. "Þau fá ekki þann stuðning sem þau þurfa til að blómstra meðan þau eru áfram föst í fátæktargildru," segir hann.

Börn utan skóla eru einkum í fátækustu ríkjunum og á átakasvæðum. Af þessum 123 milljónum barna sem njóta engrar formlegrar skólagöngu eru 40% í fátækum ríkjum, þorri þeirra í sunnanverðri Afríku og sunnanverðri Asíu, og 20% á átakasvæðum, einkum í Miðausturlöndum og norðanverðri Afríku.
 
Óverulegur hluti af framlögum til mannúðarmála rennur til menntamála, eða 2,7%, segir í fréttinni
Sameinuðu þjóðirnar vilja alþjóðlega rannsókn á Jemen

YEMEN: The Neglected War/ RT
YEMEN: The Neglected War/ RT
Mannréttindabrot halda áfram án afláts í Jemen, auk alvarlegra brota á alþjóðlegum mannúðarlögum. Óbreyttir borgarar eru fórnarlömb "hamfara af mannavöldum," að því er fram kemur í nýrri mannréttindaskýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kom út í síðustu viku.
 
Að minnsta kosti 5.144 óbreyttir borgarar hafa týnt lífi og 8.749 særst þar af  hafa 1.184 börn  dáið og 1.541 særst. Loftárásir bandalags undir forystu Sádi-Arabíu hafa grandað flestum, jafnt börnum sem öðrum sem týnt hafa lífi. Auk árása á markaðstorg, sjúkrahús, skóla, íbúðahverfi og borgaraleg mannvirki, hafa undanfarið ár verið gerðar loftárásir á jarðarfarir og lítil ferðaskip.  Zeid Ra'ad Al Hussein mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna segir brýnt að skipa óháða, alþjóðlega nefnd til að rannsaka átökin í Jemen. UNRIC - Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna - greinir frá í frétt.
Ganga til liðs við vígasveitir vegna aðgerða stjórnvalda - ekki vegna trúarbragða

Hundruð fyrrverandi vígamanna í Afríkjuríkjum segjast hafa gengið til liðs við öfgasamtök vegna aðgerða ríkisstjórna í baráttunni gegn hryðjuverkum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNDP, Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna.
 
Meðlimir vígasveitanna segja að vendipunkturinn í ákvörðun þeirra að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin hafi verið aðgerðir af hálfu stjórnvalda, t.d. morð eða handtaka á vini eða fjölskyldumeðlimi en ekki trúarbrögð eins og margir álíta.
 
Skýrslan nefnist Journey to Exstremism. Hún byggir á viðamestu rannsóknum sem gerðar hafa verið á þessum málaflokki og kemur líkast til með að verða umdeild, segir breska dagblaðið The Guardian. Reuters fréttastofan segir fátækt og aðgerðir stjórnvalda leiða til þess að ungt fólk gengur til liðs við öfgasamtök.
 
Vígasveitirnar sem stjórnvöld beina spjótum sínum að, oft með stuðningi Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja, eru jihad-sveitir eins og Boko Haram í vesturhluta Afríku og al-Shabaab í austanverði álfunni, svo og Íslamska ríkið og al-Qaida. Vígasveitir hafa samkvæmt frétt Guardian myrt 33 þúsund einstaklinga á síðustu sex árum, valdið því að þúsundir hafa flosnað upp af heimilinu sínum, skapað neyðarástand á mörgum fjölmennum svæðum og dregið úr efnahagslegum vexti í álfunni.
 
Af rúmlega 500 fyrrverandi liðsmönnum vígasveita sem rætt var við vegna skýrslunnar nefndu 71% aðgerðir stjórnvalda sem meginástæðu fyrir ákvörðuninni um að ganga til liðs við öfgasveitir. Á vef UNDP á YouTube er að finna nokkur myndbönd með viðtölum við liðsmenn vígasveita.

Þremur af hverjum fjórum börnum misþyrmt á flótta
Forsíða skýrslunnar.

Ríflega þremur af hverjum fjórum börnum og ungmennum sem freista þess að komast til Evrópu yfir Miðjarðarhafið er misþyrmt á leiðinni, segir í frétt frá RÚV í gær. 

Þar segir að Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða fólksflutningastofnunin upplýsi þetta í skýrslu um málefni barna á flótta og vergangi, sem birtist í gær. Fram kemur að börn og unglingar frá Afríku sunnan Sahara væru enn líklegri en önnur til að sæta misþyrmingum á ferðum sínum, og það megi að líkindum rekja til kynþáttahaturs.

Skýrslan ber heitið "Harrowing Journeys" (Svaðilfarir).

"Í rannsókn sinni leitaði starfsfólk stofnananna til 22.000 flótta- og förufólks. Þar af voru 11.000 börn og ungmenni. "Blákaldur veruleikinn er sá, að það er viðtekin venja að misnota, selja, misþyrma og mismuna börnum á leið yfir Miðjarðarhafið," segir í yfirlýsingu Afshan Khans, framkvæmdastjóra Evrópudeildar Barnahjálparinnar.

Í skýrslunni kemur fram að 77 af hverjum 100 börnum sem reynt hafa að komast yfir Miðjarðarhafið til Evrópu hafi orðið fyrir ofbeldi, misnotkun og meðferð sem flokkast geti sem mansal á þessum ferðum sínum. Hlutfallið sé síðan enn hærra í hópi þeirra sem komi frá Afríkulöndum sunnan Sahara, og kynþáttahatur sé líklegasta skýringin á því. Verst og hættulegast er ástandið á flóttaleiðinni í gegnum Líbíu, þar sem lögleysa er algjör og vígasveitir og glæpagengi bítast um völdin," segir í  fréttinni.
-

Nýtt kvennaathvarf í Palestínu

"Ég var gengin sjö mánuði á leið þegar ég flúði heimilið ásamt þriggja ára syni mínum. Þá var eiginmaður minn búinn að beita mig grófu líkamlegu og andlegu ofbeldi alla meðgönguna og gott betur," segir hin 23ja ára gamla Sana Ali sem fann skjól í nýstofnuðu kvennaathvarfi í Ramallah þar sem boðið er upp á alhliða aðhlynningu fyrir þolendur ofbeldis. Þremur árum áður hafði hún fætt son sinn í kvennaathvarfi styrkt af UN Women í Betlehem. Þar dvaldi hún fyrsta ár sonar síns - áður en hún treysti sér til að flytja aftur heim.

Þannig hefst frétt á vef UN Women á Íslandi.

"Nýja kvennaathvarfið í Ramallah á Vesturbakkanum er ólíkt öðrum athvörfum - þar er að finna alla þá aðstoð sem konur og unglingsstelpur þurfa í kjölfar ofbeldis líkt og læknisskoðun, lagalega ráðgjöf, sálfræðiaðstoð, tilvísanir fyrir langtíma búsetuúrræði og vernd lögreglu. Þar er meira að segja leikherbergi fyrir börn, þar sem sonur minn leikur sér." segir þar ennfremur.


Áhugavert

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-
-

Kristján Andri ávarpaði jarðhitaráðstefnu

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í París, ávarpaði jarðhitaráðstefnu  International Renewable Energy Agency (IRENA)  í gær.  Ráðstefnan er haldin í Flórens á Ítalíu. Þar ræddi hann hin fjölmörgu tækifæri sem skapast hafa í tengslum við nýtingu jarðhita auk þess sem hann sagði jarðvarma vera lykilatriði fyrir orkuöryggi og aukin lífsgæði. Sagði hann að íslenskir sérfræðingar búi yfir einstakri þekkingu sem nýta mætti þar sem jarðhita væri að finna.



Africa's growth engine is running low on fuel/ Reuters
-
The rematch: Kenya's presidential election has been overturned. What next?/ Economist
-
Burundi rejects UN accusations of crimes against humanity/ DW
-
Tired of communal conflicts in northern Nigeria, women-led peace networks take action/ UNWomen
-

Africa Renvewal - ágúst-nóvember 2017/ UN
-
Det underkända valet i Kenya - en triumf för demokratin?/ OmVärlden
-
This aid agency is using chatbots to beat world hunger/ Qz
-
UNHCR steps up efforts towards alternatives to detention in Libya and solutions for vulnerable refugees/ UNHCR
-
Development deficit feeds Boko Haram in northern Cameroon/ IRIN
-
FUTURE DEVELOPMENT: Building better defenses against rising floods and storms, eftir Vinod Thomas/ Brookings
-
Ethiopia's government is cracking down on the country's biggest pop star/ Qz
-
Áhyggjur af Heimsmarkmiðunum/ UNRIC
-
Improved Fish Processing Brings Dramatic Gains for Women/ IPS
-
Europe Accused of Complicity in 'Horrific Abuse' of Migrants in Libya/ VOA
-
Online video is driving the demand for faster internet in Africa/ Qz
-
Dominica's Geothermal Dream About to Become Reality/ IPS
-
'They should be much bigger': the heavy toll of hunger on Madagascar's children/ TheGuardian
-
EU nations authorized their vessels to unlawfully fish in African waters/ Qz

-
African governments' actions push people into extremism, study finds/ TheGuardian
-
Female genital cutting in Ekiti State-A tale of three kings/ Guardian
-
Miðafríkulýðveldið: The Consequences of War for Civilian Population in Bangassou/ Læknar án landamæra
-
Gas and oil key in East African integration/ DW
-
WHO: Over 500 Dead as Congo Cholera Epidemic Spreads/ VOA
-
Uganda's government should focus on building our economy and drop its morality and porn obsession/ Qz
-
Libya's migration crisis is about more than just security/ IRIN
-
Ugandas skoler kan ikke følge med flygtningestrømmen/ GlobalNyt

Gleðisnauð samfélög

-Þungt hljóð í burtreknum íbúum á kolavinnslusvæðum í Tete-fylki í Mósambík

Í nýju kvikmyndabroti frá Mósambík eru skoðaðar aðstæður brottfluttra íbúa námasvæða í Tete fylki.
"Verkefni okkar í fylkinu er að aðstoða samfélög í sveitum, einkum samfélögin sem námavinnslan hefur hrakið af jörðum sínum. Við vinnum að mannréttindamálum, einkum kvenna, og sinnum málsvarnarstarfi í þágu þeirra. Við upplýsum skjólstæðinga okkar um lagalegan rétt sinn, meðal annars jarðarlög og lög sem tengjast umhverfisþáttum," segir María Cussaia framkvæmdastjóri samtaka kvenna í Tete-fylki sem bjóða fram lögfræðiaðstoð fyrir efnalítil samfélög, einkum konur. Samtökin hafa sinnt málefnum samfélaga sem hafa neyðst til að flytja búferlum eftir að mósambísk yfirvöld hafa veitt erlendum námafyrirtækjum leyfi til kolavinnslu á jörðum þeirra.
 
Tete-fylki er ríkt af kolum. Stór alþjóðleg fyrirtæki eins og Rio Tinto, Riversdale og Vale hafa því fengið leyfi til kolavinnslu á þessum slóðum gegn því meðal annars að skapa brottreknum íbúum betri eða sambærilegar aðstæður á öðru svæði, 40 kílómetrum fjarri fyrri heimkynnum. Það hefur ekki gengið eftir nema að litlu leyti. Reist voru hús í hundraðatali en fyrirheit um búpening, atvinnu og margt annað hefur ekki verið efnt. Mörg húsanna sem byggð voru fyrir fáeinum árum standa nú auð og yfirgefin því eins og ein konan sagði: Hvað er hús án matar? Sú tilvitnun rataði sem fyrirsögn á skýrslu mannréttindasamtakanna Human Right Watch sem fjallaði fyrir fjórum árum ítarlega um aðstæður þessa fólks. Samtökin Oxfam hafa líka látið málefni þessa fólks til sín taka og birtu árið 2015 skýrslu um líf 736 fjölskyldna, tæplega 4000 einstaklinga, sem var komið fyrir hér á þessu hrjóstuga landi árið 2010. Vinnsluleyfin hafa gengið kaupum og sölum, Riversdale fékk leyfið fyrst, seldi það ári síðar til Rio Tinto, sem þremur árum síðar seldi það indversku námafyrirtæki, ICVL.

Fólkið var flutt hreppaflutningum frá frjósömum árbökkum Revuboe árinnar inn á þetta afskekkta gróðurlitla land þar sem ræktunarmöguleikar eru litlir, samgöngur nánast engar, enga atvinnu að hafa í nágrenninu - og fólkinu komið fyrir án þess að eiga í raun kost á að framfleyta sér og sínum. Aðstæðurnar hafa skapað gremju og þá er vægt til orða tekið; matarleysi, atvinnuleysi, nauðungarflutningar - allt þetta og fleira til hefur leitt til þess að fátæka fólkið sem hélt að auðævin í heimabyggð þeirra myndu skapa þeim betri framtíð hefur aukið á vansæld þeirra og örbirgð. Á síðustu misserum hefur reyndar verð á kolum hríðfallið og auðlindin ekki jafn ábatasöm fyrir mósambíska ríkið og vonir stóðu til.
 
Á íbúafundi hér í Chirondizi er hiti í heimamönnum. Þeir hafa neitað að flytja sig og staðið í málaferlum við ríkið vegna námavinnslunnar í nágrenninu. Heilsuleysi og margvísleg óþægindi eru rakin til mengandi umhverfis frá vinnslusvæðinu. Dómstóll í Tete úrskurðaði fyrr á árinu um lokun á vinnslunni en indverska fyrirtækið sem rekur námuna hefur ekki hlítt úrskurðinum; kveðst þurfa tíma til að bregðast við dómnum. Fólkið í Chirondizi hefur líka unnið málið í Hæstarétti í Mapútó og hyggst fara áfram með málið fyrir alþjóðadómstóla. Þá íhuga þeir frekari aðgerðir.

Safngripir 

Ljósmyndir: ÁG
- eftir Ágústu Gísladóttur forstöðumann sendiráðs Íslands í Lilongve

Þegar ég flutti til Malaví í fyrrahaust og byrjaði að horfa í kringum mig  á ferðum um sveitirnar í Dedsa og Mangochi héruðum rann upp fyrir mér hin bókstaflega merking orðatiltækisins "að vinna baki brotnu". Á hinni 240 kílómetra leið frá Lilongwe til Mangochi báru fyrir augu endalausir maísakrar (litlir og stórir) sem verið var að undibúa fyrir sáningu (þegar regnið hæfist í desember) en engin landbúnaðartæki voru sýnileg. Ég spurði kollega mína; hvar eru traktorarnir? Hvar eru allavega uxaplógarnir? Svarið var einfalt og mjög sjokkerandi fyrir sveitamanneskju frá Íslandi; "nei ekkert slíkt er notað, allir þessir maísakrar hafa verið plægðir með handafli kvenna".  Konurnar nota haka sem er kallaður "handheld - hoe" sjá myndina hér til hliðar.

Ég varð eiginlega öskureið, hvað á það eiginlega að þýða að bjóða fólki upp á landbúnaðaráhöld aftan úr forneskju þegar uxaplógurinn var fundinn upp á tólftu öld?  Hvar eru allar framfarirnar í landbúnaði í Malaví sem ég hafði heyrt um?
 
Auðvitað er Malaví ekkert einstakt í þessu efni, akrarnir eru bara svo sýnilegir.  Landbúnaður í Afríku er borinn uppi af konum og eru þær í  miklum  meirihluta þeirra smábænda sem stunda matjurtaræktun.  Þessir smábændur plægja með höndum, sá með höndum, reita illgresi með höndunum og uppskera með höndunum. Talið er að 65% af orkunni sem notuð er við landbúnað í Afríku sunnan Sahara komi frá handafli kvenna en einungis 15% frá traktorum.
 
  Fáir hafa efni á traktorum en maður skyldi halda að uxar væru meira notaðir.  Tsetse flugan sem veldur svefnsýki setur þó strik í reikninginn hún fylgir nefnilega nautgripum.  Það er líka ýmiss kostnaður sem fylgir dýrahaldi. Reyndar er lítið um búfjárhald í Malaví helst að fólk eigi nokkrar geitur og hænur. Fólksfjölgun í landinu hefur verið mikil á undanförnum áratugum og pláss fyrir graslendur er alltaf minna og minna.
 
Fátækar malavískar sveitafjölskyldur eiga ekkert val því án þess, að rækta maís á öllu  landinu sínu og eiga birgðir fram að næstu uppskeru, munu þær svelta.   Ofan á þetta bætist mikil ómegð, hætta á vannæringu barna og verðandi mæðra og brottfall barna úr skóla því allir verða að hjálpa til.  Þannig verður til vítahringur fátæktarinnar.
 
Hartnær 85% íbúa Malaví, sem nú telja 17,2 milljónir, búa í strjálbýli og hafa aðal viðurværi sitt af  sjálfþurftar ræktun á maís og öðrum matjurtum.  Um 3 milljónir malavískra kvenna (helmingur íbúa er undir 15 ára aldri) standa því undir maís framleiðslunni í landinu.  Að frelsa þessar konur frá mesta stritinu ætti að vera helsta jafnréttismálið í Malaví.
 
Þegar ég leitaði upplýsinga á vefnum um nútímavæðingu landbúnaðar í Afríku og einkum í Malaví snérust allar greinarnar um úrbætur á maís útsæði, áburðafræði, illgresiseitur og betri geymslur.  Ekki stafkrókur um vélvæðingu á ökrunum til að minnka þrældóm kvenna.  Ég ræddi líka þessi mál við aðra "þróara"  í Lilongwe sem helst höfðu áhyggjur af því, hvað konurnar ættu þá að hafa fyrir stafni.  Ég hef nú ekki miklar áhyggjur af því að bóndakonur í Malaví hafi ekki nóg að gera þótt vinnan á ökrunum verði léttari.
 
Ég bind vonir við nýja þróunar- og hagvaxtaráætlun Malaví en þar er minnst á vélvæðingu landbúnaðarins og í fyrra hófst jafnréttisátak á vegum Afríkusambandsins sem miðar að því að hætta notkun "handheld hoes" fyrir árið 2025 - þeirra tími sé loksins liðinn.

facebook
UM HEIMSLJÓS 

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál er gefið út af utanríkisráðuneytinu. Heimsljós er fræðslu- og upplýsingarit um þróunar- og mannúðarmál og alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ritinu er ætlað að glæða umræðu um málaflokkinn og gefa áhugasömum kost á því að fylgjast með því sem hæst ber hverju sinni. Heimsljós birtir gjarnan greinar um þróunarmál en ætíð undir nafni og á ábyrgð höfunda. Slíkar greinar þurfa ekki að endurspegla stefnu stjórnvalda. 

 

Þeir sem vilja senda okkur ábendingu um efni eða afskrá sig af netfangalista eru vinsamlegast beðnir um að senda slík erindi á netfang ritstjórans, Gunnars Salvarssonar, gsal@mfa.is

.

Við biðjumst velvirðingar á því að geta ekki notað íslenskar gæsalappir í viðtölum en bandarískt sniðmát veftímaritsins leyfir ekki notkun þeirra.

 

ISSN 1670-8105